154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[23:03]
Horfa

Katrín Sif Árnadóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Ég vil í andsvari mínu spyrja hv. þingmann út í skoðun hans á gjaldtöku hins opinbera almennt. Nú er það gjarnan svo að hinar ýmsu gjaldskrár opinberra aðila eru uppfærðar um hver áramót og gjöld sem almenningur þarf að greiða eru hækkuð, oftast í takt við þróun vísitölu neysluverðs. Telur hv. þingmaður að þetta verklag sé skynsamlegt, þ.e. að hækka gjöld árlega um þá prósentu sem samsvarar vísitöluhækkunum undangengins árs? Ég tek að vísu fram að mér finnst sú gjaldtaka sem við ræðum í dag kannski aðeins annars eðlis þar sem hér er um að ræða gjaldtöku sem er beintengd þjónustu sem ákveðin stofnun veitir sérgreindri atvinnugrein. En fannst hv. þingmanni það t.d. forsvaranlegt þegar ríkisstjórnin sagðist vilja berjast gegn verðbólgunni haustið 2022 en lagði samt til gjaldahækkun sem leiddi til aukinnar verðbólgu á árinu 2023? Ég upplifi nefnilega að sitjandi ríkisstjórn viti ekki alveg hvernig hún eigi að beita sér í baráttunni við verðbólguna.

En hvað sem því líður þá vil ég spyrja hv. þingmann einnar spurningar til viðbótar: Telur hv. þingmaður að hugsanlega upplifi fleiri stofnanir hins opinbera ákveðinn ómöguleika þegar kemur að því að sinna lögbundnum verkefnum vegna þess að gjaldtökuheimildir endurspegla ekki þann kostnað sem hlýst af veittri þjónustu og jafnframt vegna þess að fjárheimildir bæta ekki upp mismuninn þar á milli?