154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[23:10]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom mjög ítarlega inn á það hvað er að orkustefnu þessarar ríkisstjórnar sem hefur sett sér það metnaðarfulla markmið, sem er t.d. ekkert í takt við markmið Evrópusambandsins, um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040, hvað sem það nú þýðir, hvort það eru orkuskipti í flugi, bara í samgöngum, á sjó — ég ætla ekki nánar út í það.

Í ræðu sinni fór hv. þingmaður mjög ítarlega yfir leyfisveitingaferlið og þær tafir sem eiga sér stað í því ferli þegar kemur að afgreiðslu ýmissa leyfa fyrir orkumannvirki. Hann fór m.a. yfir málsmeðferðartíma virkjunarleyfis Hvammsvirkjunar, sem tók 18 mánuði, sem var vissulega ógilt. Í ræðu sinni nefndi hann líka — já, hann er bara búinn að fara yfir alls konar atriði sem ég staldra rosalega mikið við. En ég tók eftir því að það er gegnumgangandi þema í ræðu hv. þingmanns varðandi óskilvirkni í kerfinu og það leiðir m.a. af því að þetta er rosalega flókið kerfi eins og ég er viss um að hv. þingmaður hefur kynnt sér. Það eru tvö aðskilin kerfi og tvær aðskildar málsmeðferðir sem renna síðan saman í eitt og við sáum afleiðingar af því í Suðurnesjalínu 2. En til að fara aftur í nýlegt mál, ógildingu á virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar þá er, líkt og ég sagði, málsmeðferðarferlið og leyfisveitingaferlið rosalega samblandað, það reynir á samspil ýmissa laga og m.a. reynir á samspil raforkulaga og laga um stjórn vatnamála sem var grundvöllur ógildingar virkjunarleyfis Hvammsvirkjunar, 3. mgr. 28. gr. Mig langaði því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að ósamræmd aðferðafræði rammaáætlunar og vatnaáætlunar leiði til þeirra tafa og þeirrar óskilvirkni sem á sér stað í leyfisveitingaferli orkumannvirkja.