154. löggjafarþing — 119. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[00:42]
Horfa

Katrín Sif Árnadóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða ræðu. Þetta frumvarp er um margt áhugavert og flókið. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á áhugaverðan vinkil í þessu máli sem ég vil endilega fá að heyra skoðun hv. þingmanns á. Það er sú áhugaverða staðreynd að ýmsir aðilar, svo sem Landsvirkjun og Samtök iðnaðarins, lýstu sig fylgjandi aukinni gjaldtöku. En þau hafa auðvitað áttað sig á því sem hagsmunaaðilar og stórnotendur þeirrar þjónustu sem Orkustofnun veitir, að stofnunin er vægast sagt vanfjármögnuð, eins og reyndar margar aðrar stjórnsýslu- og eftirlitsstofnanir. Hvar telur hv. þingmaður að svokallaðir flöskuhálsar geti myndast í meðferð þessara leyfa? Er mikið um óþarflega miklar tafir í öllum þessum stofnunum vegna þess að verkin skiptast á milli mismunandi stofnana?