154. löggjafarþing — 119. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[00:47]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Ég held að það sé full ástæða til að skoða gaumgæfilega hvort þarna sé verið að tryggja fulla fjármögnun verkefna stofnunarinnar sem um ræðir. Gjaldtaka fyrir leyfisveitingar er auðvitað eitthvað sem veltur á málaflokkum, hversu há á að vera. Ég held að þarna sé full ástæða til að skoða hvort ekki megi ganga lengra til að tryggja það því að þetta er auðvitað mjög mikilvægt hlutverk. Við erum að tala um vernd auðlinda okkar. Við erum líka að tala um það að í auðlindum okkar felast gríðarlega mikil verðmæti sem er kannski ekkert óeðlilegt að við njótum öll arðs af. Það er auðvitað eitt og svo hitt að kannski er ekki endilega rétt að of mikill kostnaður af því að aðilar samfélagsins geti nýtt auðlindirnar okkur öllum til hagsbóta falli þá beint á okkar sameiginlegu sjóði sem eru auðvitað hugsaðir til að standa undir þeim innviðum sem þurfa að vera hér til þess að tryggja, hvað eigum við að segja, lágmarksþjónustu í samfélaginu, þótt það sé náttúrlega umdeilt hvað er lágmark. Ætli það sé ekki fjarri lágmarki margra annarra það sem mér finnst. Það er alveg spurning að hvaða marki eða hvort það sé að einhverju marki sem það á að koma úr vasa almennings en ekki þeirra sem fyrst og fremst njóta góðs af nýtingu okkar sameiginlegu auðlinda. Þannig að jú, ég held að það þurfi að skoða þetta mjög vel. Við þurfum að skoða það við meðferð þessa frumvarps hvort við séum ekki alveg örugglega að gera þetta rétt til að tryggja að það sé verið að fullfjármagna þessi mikilvægu verkefni.