154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í þau sjö ár sem þessi ríkisstjórn hefur verið við völd hefur hún fundið út hverjir blórabögglarnir eru í þessu samfélagi. Hverjir eru það sem eiga að bera mestu byrðarnar? Hverjir eru það sem má skatta og skerða keðjuverkandi til fátæktar? Það eru þeir sem eru að reyna að tóra í almannatryggingakerfinu á lífeyrislaunum. Það er alveg með ólíkindum að útvaldir, þeir sem eru með góð laun; ráðherrar, þingmenn, ráðuneytisstjórar dómarar, hafa það há laun að þegar þeir fara á eftirlaun þá fá þeir yfir 700.000 kr. úr lífeyrissjóði. Hvað verður um þá? Þeir fá allar hækkanir, engar skerðingar. Þeir eru í paradís. En hvað verður um alla hina? Jú, þeir fá keðjuverkandi skerðingar á skerðingar ofan og eiga að lepja dauðann úr skel. Hvernig fær ríkisstjórnin það út að það eigi bara að hækka einu sinni á ári í almannatryggingakerfinu? Og þá taka þeir allar vísitölur, hræra þeim saman í einn pott og búa til einhverja furðulega niðurstöðu sem er yfirleitt helmingi minna en fólk á að fá.

Nú var samið á almennum vinnumarkaði um 23.750 kr. á mánuði, afturvirkt frá 1. febrúar síðastliðnum. Fá eldri borgara og öryrkjar það? Nei. Og þá er samið aftur um næstu áramót um 23.750. Við erum að tala um 47.000 kr. Fá eldri borgarar og öryrkjar það? Nei. Þeir verða settir í vísitölupottinn og hrært og hrært þangað til sú niðurstaða fæst að þeir eigi ekki skilið nema brotabrot af þessu. Það er alveg með ólíkindum að þessi ríkisstjórn skuli koma svona fram við aldraða og öryrkja, þá sem verst hafa það hér og eru að reyna að tóra á þessum ömurlegu lífeyrislaunum sem þeim eru skömmtuð vel skert frá Tryggingastofnun ríkisins.