154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að nýta þessar tvær mínútur til að ræða um störf þingsins. Í gær var vika síðan þing hóf störf að loknu hléi vegna forsetakosninga og augljóst hverjum þeim sem fylgist með starfi okkar hér og þingfundum að þingmenn stjórnarliðsins hafa lítið mætt til skrafs og ráðagerða í þingsalnum síðustu þingfundadaga en látið það eftir minni hlutanum, stjórnarandstöðunni, að ræða málin að mestu leyti, þó með undantekningum.

En látum það vera, hæstv. forseti. Samkvæmt starfsáætlun á þingi að ljúka í lok þessarar viku og eftir þessa löngu bið núna síðustu rúmu viku eftir því að eitthvað gerist, að það kvikni á ljósinu, ef maður má orða það þannig, hjá meiri hlutanum þá hefur ekkert fregnast af framvindu þeirra mála sem þó er nauðsynlegt að afgreiða. Ég læt vera þó að mál eins og í hv. umhverfis- og samgöngunefnd er varða vindorkuna strandi í nefndinni og verði þar í sumar. Ég læt vera þó að mál eins og Orkusjóður strandi þar líka og kannski eitthvað fleira, sameining stofnana. En að meiri hlutinn, að stjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um afgreiðslu samgönguáætlunar ári eftir að það átti að afgreiða hana héðan segir sögu af vanhæfi. Ég held að það sé eiginlega eina orðið sem ég á yfir þá stöðu, vanhæfi sem væntanlega á rætur í því að innanmein þessarar ríkisstjórnar eru orðin með þeim hætti að þau koma í veg fyrir að nokkuð gagnlegt, að nokkuð gagnlegt sé afgreitt héðan af hinu háa Alþingi.