154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að tala um blessaða ríkisstjórnina og þetta tilgangsleysi sem hún býður upp á hvern dag, hálfkák og fimbulfamb eða dapurlegar ákvarðanir þegar kemur til að mynda að hvalveiðum. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru búin að halda þinginu í gíslingu núna í marga daga, eiginlega vikum saman og þetta stjórnleysi, það er náttúrlega enginn bragur á þessu. Þannig að mig langar bara að tala um næstu ríkisstjórn, hvað hún ætlar að gera. Við í Viðreisn höfum mjög verið að einblína á fjármál ríkisins og forgangsröðun. Það er okkur mjög hugleikið. Og já, það var minnst á evruna hér áðan. Í næstu ríkisstjórn, sem við vonandi sitjum í, munum við leggja áherslu á það að Ísland fari inn í stöðugt gjaldmiðlaumhverfi með fyrirsjáanleika fyrir fólkið í landinu, fyrir heimilin í landinu og fyrir bændur í landinu. Við í Viðreisn teljum mikilvægt núna þegar við erum að upplifa stanslaus útgjöld ríkissjóðs — og bara svo ég vitni í meirihlutaálit ríkisstjórnarflokkanna um fjármálaáætlun þá segir meiri hlutinn alveg skýrt að útgjöld hins opinbera hafi aukist meira hér á landi en nokkurs staðar annars staðar á Norðurlöndunum, ekki nokkurs staðar annars staðar á Norðurlöndum. Það þarf að bremsa þessa ríkisstjórn af og við þurfum ábyrgð fram í tímann. Þess vegna segjum við í Viðreisn: Við þurfum að vinda ofan af mistökum síðustu ára. Það verður ekki gert í einu vetfangi. Það verðum við því miður að gera í áföngum. En við verðum að styrkja ríkisfjármálaregluna með því að bæta útgjaldareglunni við hana. Við munum leggja það til fyrir næsta kjörtímabil að við sýnum ábyrgari ríkisfjármál og að við setjum útgjaldareglu á dagskrá næstu ríkisstjórnar, því að eins og þetta hefur verið spilað upp af þessari ríkisstjórn þá er það ekki lengur fólki bjóðandi. (Forseti hringir.) Við verðum að fara að setja leikreglurnar skýrt fram og horfa fram í tímann. Þess vegna þurfum (Forseti hringir.) við ríkisstjórn, virðulegi forseti, sem er fyrir fólkið í landinu og fyrir framtíðina í landinu.