154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðný Birna Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú höfum við á Reykjanesinu búið við sérstaka tíma undanfarin þrjú ár og þrjá mánuði; jarðskjálfta, eldgos og ég tala nú ekki um þær hörmulegu aðstæður sem nágrannar okkar í Grindavík hafa verið að fást við. Við erum líka að upplifa það að allur Reykjanesskaginn er með öndina í hálsinum við hvert nýtt gos; hvar það kemur upp og hvar það rennur þar sem innviðir okkar á svæðinu, sem koma frá Svartsengi, liggja um svæðið. Hraunið í dag mallar 800 metra frá Njarðvíkuræðinni, en í febrúar fór hún í sundur og sendi Reykjanes aftur til miðalda með gríðarlegri takmörkun á rafmagni og engu heitu vatni í rúmlega vikufrosthörku. Ég geri mér grein fyrir alvarleika málsins en við hljótum á einhverjum tímapunkti að koma fram með langtímaáætlun til framtíðar um hvað við ætlum að gera á svæðinu. Búið er að grafa niður lagnir og verja þær eins og hægt er. En ætlum við að reisa aðra varnargarða utan um innviði okkar á svæðinu til að tryggja þá? Ætlum við að reisa varakerfi sem getur tekið við álaginu? Ef svo er, hver ætlar að borga það? Þetta ástand getur ekki bara verið vandamál þeirra sem búa á svæðinu. Þetta er ekki aðgerð sem er valkvæð. Þetta er grundvöllur samfélagsins okkar og atvinnureksturs á svæðinu. Hver er afstaða okkar til framtíðar önnur en að bíða með öndina í hálsinum og bregðast við eftir að eitthvað bregst? Framtíð 30.000 íbúa og fjöldi fyrirtækja, þar á meðal alþjóðaflugvöllurinn okkar, væri nefnilega alveg til í að fá að vita það. Annars bíðum við bara spennt eftir Suðurnesjalínu 2 og framtíðarraforkuöryggi á Suðurnesjum.