154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

forvarnir og lýðheilsa þegar horft er til aukins aðgengis að áfengi.

[14:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá. Það á sér auðvitað fjölmarga snertifleti. En hér erum við undir yfirskriftinni Aukið aðgengi að áfengi og meint ólögmæti netsölu. Fyrsta spurningin sem hv. þingmaður beinir til mín er hvaða áhrif ráðherra telji að netsala áfengis hafi á lýðheilsu Íslendinga í ljósi upplýsinga um hana. Það sem snýr að heilbrigðisráðherra í þessu eru lýðheilsa og forvarnir. Í gildi er lýðheilsustefna sem var samþykkt hér á Alþingi í júlí 2021 með öllum greiddum atkvæðum þar sem vísað er til heilsueflingar og forvarna, m.a. að koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er og viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Hv. þingmaður fór hér í inngangsræðu sinni mjög vel yfir það hvað aukið aðgengi þýðir, hvaða afleiðingar aukin neysla hefur áhrif á sjúkdóma og ég þarf í sjálfu sér ekki að rekja það hér aftur en það er allt saman hárrétt. Hún hefur áhrif á aukningu ýmissa tegunda krabbameina, sykursýki, hjartasjúkdóma, skorpulifur, heilablóðfall o.s.frv. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við erum að horfa til lýðheilsustefnu og hvernig við framfylgjum markmiðum.

Takmarkanir á aðgengi eins og einkasala, takmarkanir á opnunartíma og auglýsingabann, eru meðal þeirra öflugustu forvarnaaðgerða sem við eigum og hefur verið staðfest að þær hafa áhrif til að draga úr neyslu áfengis. Við höfum náð markverðum árangri í öllum samanburði. Hv. þingmaður beinir í öðru lagi þeirri spurningu til mín þar sem hún rekur hvatningu frá nánast öllum heilbrigðisstéttum; Krabbameinsfélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélagi Íslands, landlækni að sjálfsögðu, auk fagaðila í áfengismeðferð og ég tala nú ekki um grasrótarsamtök. Þær stéttir eru allar einróma, þær eru lýðheilsumegin í tilverunni. Þetta er mjög mikilvæg hvatning. Ég deili að sjálfsögðu þessari skoðun og þessari sýn á lýðheilsustefnu okkar og það er mikilvægt í þessu samhengi að halda í einkasölufyrirkomulagið.

Ég hef líka fengið bréflega hvatningu frá framkvæmdastjóra Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar sem dregið er fram og vísað í tölur til staðfestingar um árangur í að ná tökum til að mynda á neyslu unglinga þar sem við höfum náð markverðum árangri. Vísað er í samanburð annarra þjóða sem hafa breytt út af og ekki verið með þetta fyrirkomulag, hafa til að mynda leyft að selja áfengi í matvöruverslunum, sem sýna ekki sama árangur og það hefur slæmar afleiðingar, þannig að þetta hefur verið rannsakað. Í þessu bréfi erum við stjórnvöld hvött til að passa upp á þetta fyrirkomulag, þannig að hvatningin er mikil og ég deili algjörlega þeirri sýn.

Þriðja spurningin sem hv. þingmaður kemur hér með fjallar um að í stjórnarsáttmála segir að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlunargerð og stefnumótun. Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra sér reiðubúinn til að grípa í taumana. Því vil ég svara sem svo að í síðustu viku sendi ég formlegt erindi til fjármála- og efnahagsráðherra þess efnis að ég óskaði eftir upplýsingum um hvernig ráðherra hygðist framfylgja eftirliti með áfengi sem dómstólar hafa m.a. bent á að hvíli á honum. Ég vísa þá í lög um verslun með áfengi og tóbak, markmiðsákvæði 2. gr. þeirra laga og 7. gr., þar sem einkasölufyrirkomulagið er staðfest og afrit sent á dómsmálaráðherra. Það er mitt svar við þessari spurningu hv. þingmanns.