154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[15:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu um þetta frumvarp. Tilgangur þess er í sjálfu sér mjög skýr, einfaldlega sá að Orkustofnun takist að fjármagna leyfisveitingar sínar með þjónustugjöldum. Þetta frumvarp tryggir heimildir stofnunarinnar til að innheimta gjöld í samræmi við kostnað af leyfisveitingum annars vegar og eftirliti hins vegar.

Almennt kannski fyrst um orkumálin og stöðu þeirra: Af því að nú er í tísku að tala um pólaríseringu í stjórnmálunum myndi ég halda að hér sé einn sá málaflokkur sem hefur beinlínis goldið fyrir samsetningu þessarar ríkisstjórnar; höfundarréttinn að pólaríseringu í umræðu um orkumál á ríkisstjórnin sjálf. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að hraðari stjórnsýsla í þessum málaflokki sé auðvitað augljóst almannahagsmunamál. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að þeir aðilar sem eru að sækja um leyfi greiði sjálfir fyrir það með beinum hætti. Það er ekki langt síðan við stóðum hér í umræðu um annað mál og ræddum stöðu orkumála í landinu almennt en líka í samhengi við stöðuna í Evrópu. Ég held að það sé almennur skilningur á því á Alþingi að orkumál eru mjög augljóst þjóðaröryggismál. Þess vegna skiptir það máli að við rýnum alla okkar löggjöf með þeim gleraugum líka.

Varðandi þetta mál þá er það auðvitað þannig að umsvif verkefna og þróunin hefur leitt til þess að Orkustofnun skortir fullnægjandi fjármögnun þessara verkefna. Það hefur auðvitað áhrif á það hvernig stofnunin hefur getað sinnt sínum verkefnum. Það hefur komið fram í umfjöllun málsins að talið sé brýnt að veita þessa heimild til töku þjónustugjalda. Við höfum heyrt að við smíði reglnanna sé verið að taka mið af ákvæðum, m.a. í vatnalögum. Við höfum fordæmi um gjöld fyrir leyfi samkvæmt auðlindalögum og hafsbotnslögum sem í dag eru innheimt samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þegar ég var að skoða þetta mál fór ég aðeins í gegnum umsagnirnar hjá þeim aðilum sem eiga hagsmuna að gæta, og það er kannski dálítið augljóst hverjir það eru sem eru að sækja um leyfi í þessum tilvikum. Þar sést með mjög skýrum hætti að þau fyrirtæki og þær stofnanir sem eiga hér undir eru jákvæð í garð þessara breytinga. Landsvirkjun nefnir t.d. sérstaklega að það sé brýnt að búa þannig í haginn að koma í veg fyrir þá löngu afgreiðslutíma Orkustofnunar sem við þekkjum öll að er veruleiki málsins. Þessi langi afgreiðslutími hefur orsakað tafir á virkjunarframkvæmdum. Eitt er það, af því að stundum er verið að tala um rammann sem sjálfstætt atriði í því sambandi, að ég er alveg á því einlæglega að hægt sé að flýta ferlum þar. Það er síðan auðvitað sjálfstætt markmið að eftir að tilteknir kostir hafa verið flokkaðir sem virkjunarkostir er enn langt í land. Þegar við erum búin að fara í gegnum alla vinnsluna, öll þau sjónarmið, alla þá gagnavinnslu sem þarf að fara í, og erum komin í ákvörðunarfasa, er engu að síður langt í land. Það er sjálfstætt almannahagsmunamál að flýta þar fyrir. Landsvirkjun nefnir einmitt að mikilvægt sé að stjórnvöld leiti leiða til að stuðla að eðlilegum framgangi endurnýjanlegra orkuvinnsluverkefna til að tryggja orkuöryggi þjóðarinnar. Í þeim anda nefnir Landsvirkjun að frumvarpið sé jákvætt og fagnar breytingum sem á því voru gerðar hjá ráðuneytinu.

Ég hef hlustað á hv. þingmenn í umræðu um þetta mál þar sem aðeins er verið að ræða eðli gjaldtökunnar. Landsvirkjun leggur áherslu á að gjaldtakan þjóni beinlínis þeim tilgangi að auka skilvirkni og hraðari afgreiðslu umsókna og leyfa vegna endurnýjanlegrar orkuvinnslu. Auðvitað finnst manni það vera augljóst markmið en að það eigi um leið að geta verið augljós niðurstaða málsins, að svona frumvarp geti í reynd og ætti í reynd að hafa þau áhrif. Og það ætti að vera okkar krafa. Þar kemur líka fram það sem ég hef heyrt hv. þingmenn ræða hér í þingsal, m.a. í dag, að það sé nauðsynlegt að upphæð gjaldsins taki mið af eiginlegum kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna þannig að gjaldtakan sé ekki sjálfstæður tekjupóstur, ef það má orða það þannig, heldur kostnaður við þessa vinnu. Landsvirkjun flaggar því raunar líka að nauðsynlegt sé að auka gegnsæi í afgreiðslu leyfa frá Orkustofnun, það þurfi að upplýsa umsækjendur vel um hvað teljist fullnægjandi leyfisumsóknir og sérstaklega gegnsæi í gjaldtöku vegna eftirlitsins. Þetta eru í sjálfu sér málefnalegar kröfur sem almenningur og atvinnulíf eiga að geta haft uppi í samskiptum við allar opinberar stofnanir, gagnsæi í vinnubrögðum. Þar er líka nefnt atriði sem er nú töluvert til umræðu hér í þessum sal, þ.e. að settur sé tímarammi um afgreiðslu leyfa frá stofnuninni og að innheimta þjónustugjalda sé notuð til að þeir tímafrestir verði þá virtir. Þá fáum við aftur þetta sjónarmið um það að gjaldtakan geti í reynd hjálpað til við að stytta málsmeðferðartíma og liðka fyrir í þessum efnum.

Mér fannst ég greina svipuð stef í umsögnum annarra aðila og nefni sem dæmi Samorku sem styður þessi áform og nefnir að Samorka sé almennt fylgjandi því að styrkja lagaheimildir Orkustofnunar til töku þjónustugjalda. Þar er nefnt að orðalag frumvarpsins hafi við vinnu tekið jákvæðum breytingum frá því að málið var upphaflega birt í samráðsgátt og að frumvarpið sé orðið skýrara hvað það varðar að gjaldskrá taki mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Ég ætla kannski ekki að hafa fleiri orð um þetta atriði. En eins og ég segi er Samorka jákvæð gagnvart tilgangi og markmiðum en þau nefna síðan að framsetning ákvæðanna í frumvarpinu sé með þeim hætti að hæpið sé að þau standist kröfur lögmætisreglunnar varðandi mörk þjónustugjalda annars vegar og skatta hins vegar. Þar eru þau að vísa til sjónarmiða sem umboðsmaður Alþingis hefur haldið til haga og vísa raunar mjög mjög nákvæmlega í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis frá árinu 2019, á bls.52, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þannig virðist sem borgararnir séu í auknum mæli látnir greiða fyrir störf stjórnvalda sem fela í sér rækslu lögbundinna verkefna og þá með greiðslum sem felldar eru undir þjónustugjöld.“

Í umsögninni er rakið að umboðsmaður sé að skoða nánar þróun sem hann telji sig merkja í þeim efnum. Þetta er nú kannski í sjálfu sér ekki alveg nýtt stef í umræðum hér í þingsal og lagalega er það auðvitað alltaf þessi spurning: Hvenær hætta þjónustugjöld að vera þjónustugjöld og hvenær erum við farin að tala um skatta?

Mig langaði líka til að nefna stuttlega sjónarmið Samtaka iðnaðarins í þessu máli af því að mér finnst þau skipta máli. Þar kemur líka fram að frumvarpið leggi til þessar heimildir til töku þjónustugjalda og að í 2. kafla greinargerðar með frumvarpinu hafi, frá þeim tíma sem liðið hefur frá yfirfærslu leyfisveitingar frá ráðherra til Orkustofnunar, umsvif verkefna og þróun í stjórnsýslu málaflokksins leitt til þess að fjármögnun þessara verkefna sé ófullnægjandi sem hafi þau áhrif að stofnunin hafi ekki getað sinnt þessu nægilega vel. En þau nefna líka sem ágalla á frumvarpinu að stjórnvöld, í þessu tilviki sá ráðherra sem mælir fyrir málinu, séu að fjarlægjast þennan kjarna þjónustugjalda. En í mjög einföldu máli þá erum við, þegar við tölum um þjónustugjald, að tala um að borgari, almenningur eða fyrirtæki, eigi eingöngu að greiða fyrir þá þjónustu sem hann er að þiggja frá stjórnvaldinu í umrætt sinn, að það sé í raun og veru greiðsla fyrir afmarkaða þjónustu og ekkert annað. Og aftur þetta stef um að borgararnir séu að greiða umfram það. Mig langaði bara að nefna þessi atriði um það að í mínum huga er það algerlega augljóst að það geti orðið til þess að flýta málsmeðferðartíma og afgreiðslutíma þessara leyfa, þ.e. með þessum gjöldum. En það er á sama tíma líka skýrt að á meðan við tölum um þjónustugjöld þurfa þau að standa undir nafni sem slík, af því að það er bara mjög skýrt skilgreint í lögum hvað þar fellur undir.

En ég myndi líka vilja nefna sérstaklega í lokin, af því að við erum svo mikið að tala um leyfisveitingarnar og málsmeðferðartímann í því samhengi, hið mikla almannahagsmunamál, að almannahagsmunirnir standa auðvitað líka til þess að opinberar stofnanir hafi í reynd burði til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Mig langaði til að ljúka máli mínu á nokkrum orðum um það af því að frumvarpinu er ætlað að tryggja heimildir stofnunarinnar til að innheimta gjöld í samræmi við kostnað af leyfisveitingum annars vegar og eftirliti hins vegar. Mér hefur fundist vera mjög vaxandi pólitískur þungi, aðallega, myndi ég segja, af hálfu ríkisstjórnarflokkanna þriggja, á að veikja allt opinbert eftirlit og færa heilbrigt eftirlit í þágu fólksins í landinu í einhvern annarlegan búning. Við sjáum þetta aftur og aftur. Þyngsta ágjöfin hefur mér fundist vera varðandi samkeppniseftirlitið. Á meðan við höfum séð nágrannaríki okkar á Norðurlöndum og mörg Evrópuríki styðja við og styrkja sínar samkeppnisstofnanir nú á verðbólgutímum, til þess beinlínis að vinna gegn verðbólgu og standa með almenningi með þeim hætti, hefur ríkisstjórnin farið í þveröfuga átt. Samkeppniseftirlit og samkeppnisstofnanir á Íslandi hafa markvisst verið veiktar á tíma þessarar ríkisstjórnar og það er augljóst þegar við hlustum á þingmenn stjórnarmeirihlutans að margir þeirra óska þess hreinlega að hér sé ekkert samkeppniseftirlit starfandi. Það er stórkostlegt áhyggjuefni fyrir land eins og Ísland sem einkennist af fákeppni, sem er þannig í landfræðilegu samhengi að við þurfum í reynd að leggja okkur fram um að laða til okkar erlend fyrirtæki og heilbrigða samkeppni að utan. Mig langaði til að ljúka máli mínu á því að segja að þetta frumvarp þjónar vissulega miklum hagsmunum í samhengi við leyfisveitingar en ekki síður í samhengi við eftirlit.