154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[15:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég get ekki annað en verið innilega sammála henni. Það hlýtur þá að vera vísvitandi og viljandi gert að fjársvelta ákveðnar stofnanir þannig að t.d. Samkeppniseftirlitið geti ekki farið í neina frumkvæðisvinnu. Kannski væri lausnin, ef það væri vilji til þess, að eyrnamerkja ákveðna prósentu af þeim fjármunum sem stofnunin á að fá. Segjum að stofnunin fái ákveðið fjármagn til þess að vinna sína vinnu, þá fái hún 10% meira til þess að fara t.d. í frumkvæðisvinnu, bara þannig að það sé tryggt fjármagn fyrir hana til að gera þessa hluti en ekki að ríkisvaldið geti eiginlega séð til þess að hún sé óvirk og geti ekki vegna fjárskorts unnið sína vinnu. Ég spyr mig hvernig við getum eiginlega leyst þetta mál. Kannski bara með því að fá nýja ríkisstjórn.