154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir hennar andsvar og ég er sammála henni. Jú, auðvitað á þetta allt að endurspegla þannig að t.d. námslán — ég meina, ég segi fyrir mitt leyti að því fleiri í nám og því fleiri sem geta stundað nám, þeim mun betra. Ég hef aldrei getað skilið það hvernig í ósköpunum maður ætti að finna það út í námslánakerfinu að það þurfi að refsa þér fyrir að vinna. Það á auðvitað ekki að refsa nokkrum manni nokkurn tímann fyrir að vinna. Það er, held ég, það heimskulegasta sem við höfum fundið upp í okkar samfélagi þegar við segjum, hvort sem það er við öryrkja, eldri borgara eða námsmenn: Þið megi ekki vinna, þá refsum við ykkur fjárhagslega. Þegar þú vinnur þá borgar þú skatta og þeir renna til samfélagsins og þú hefur það betra. Við eigum líka að vera með miklu meira styrkjakerfi í námi en námslánakerfið er nokkurn tímann, vegna þess að þetta skilar okkur margfalt til baka í framtíðinni. Það er engin spurning. Við eigum líka að hugsa, eins og ef við tökum það sem við erum að gera hér í sambandi við náttúru og annað, að það er svolítið undarlegt fyrirbrigði að við skulum vera komin á þann stað að við erum með mengunarkvóta og við erum að fá milljarða frá Evrópusambandinu til þess að taka við einhverjum úrgangi frá þeim til að dæla niður í jörðina hjá okkur. Við erum að fá milljarða fyrir það að selja einhverja kvóta til Evrópu til þess að aðilar þar geti mengað meira. Þetta er orðin svo mikil vitleysa. Við verðum að fara að stoppa svona fíflagang og bera meiri virðingu fyrir okkur og náttúrunni en að leyfa það að allt sé til sölu og það þegar við erum að tala um náttúruvernd, þegar það er alveg þveröfugt.