154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[17:28]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég var sammála mörgum atriðum í hennar ræðu. Mín skoðun er sú, þegar við erum að tala um umhverfismat faghópa, til að setja virkjun í rammaáætlun, og svo almennt umhverfismat, að það sé tvíverknaður. Ég hefði talið að það væri betra að hafa vandað umhverfismat einu sinni og þá þegar verið væri að fara í framkvæmdir. Ég get ekki séð að virkjun sem er komin í rammaáætlun — að það verði sagt: Nei, við getum ekki farið í þetta af því að umhverfisáhrifin eru of mikil. Mér finnst það svolítið sérstakt. Ég ætla að hafa seinna andsvarið stutt. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé raforkuskortur á Íslandi. Og það sem síður hefur kannski verið rætt hér í orkuumræðunni undanfarið er heitavatnsskortur. Vissulega var mjög áhugaverð umræða um það í andsvari hv. þingmanns við hv. þm. Andrés Inga Jónsson hér áðan, mjög fróðleg umræða.

Það er nefnilega margt í þessu, herra forseti. Sjónarmið um að búið sé að virkja alla þægilegu kostina hvað varðar raskað umhverfi; sjónarmið um að búið sé að selja of mikið af raforkunni þannig að svigrúmið til að mæta álagstoppum sé uppurið; sjónarmið um að það sé of erfitt að fá leyfi fyrir virkjunaráformum; sjónarmið um að það kunni að hefta vöxt hagkerfisins ef við aukum ekki við framleiðslu á raforku og svo mætti lengi telja — ég tel að þetta séu sjónarmið sem eru vissulega áhugaverð þegar kemur að heitavatnsskorti og rafmagnsskorti. Það kom vel fram í ræðu hv. þingmanns að hún hlakkaði til að það yrði borað meira og að meira heitt vatn fyndist. En það eru ákveðnar takmarkanir í gangi sem hefur verið haldið fram varðandi raforku, ég get bara minnst á Norðlingaölduveitu á sínum tíma. En ég hlakka til að heyra svar hv. þingmanns við þessum tveimur spurningum: Er raforkuskortur í landinu? Er heitavatnsskortur í landinu? Og er hægt að bæta úr þessu án þess að ganga á umhverfið?