154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við afgreiddum hér á föstudaginn síðastliðinn fjármálaáætlun úr fjárlaganefnd, á síðasta föstudag. Ég bjóst við að málið kæmi á dagskrá þingsins síðasta þriðjudag. Fyrst það gerðist ekki bjóst ég við að það yrði í dag, var orðinn frekar langeygur eftir að fá að ræða fjármál ríkisstjórnarinnar hér í þingsal. Þótt undarlegt megi virðast spurði fjárlaganefnd ráðuneytin ýmissa spurninga sem svör eru enn að berast við. Samt er búið að rífa málið út úr nefnd til þess greinilega að ná því hingað inn í þingsal, en ekkert bólar á því í þingsal. Ég átta mig ekki á því. Og í staðinn fyrir að ræða fjármál ríkisstjórnarinnar setur þingforseti útlendingamálið efst á dagskrá. Ríkisstjórnin vill frekar ræða útlendingamál en fjármál ríkisstjórnarinnar. Þetta verður dálítið áhugaverður dagur giska ég á. Hvers vegna er þetta fyrirkomulag hjá forseta að raða dagskránni svona?