154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:37]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp sem nefndarmaður í hv. fjárlaganefnd og tek undir orð hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Er fjármálaáætlun orðin eitthvert samningsmál meðal ríkisstjórnarinnar? Ég veit ekki hvenær við komumst á þann stað að það er mál sem er byrjað að semja um. Þetta er risamál sem tók langan tíma að fá hér fram. Ég verð nú að viðurkenna að kannski þurfum við mögulega að bíða enn þá lengur með þetta vegna þess að það verða ýmsar vendingar hér. Nú síðast les maður um að þjóðaróperan sé komin út. Ég sé fram á það að þurfa að breyta mínu nefndaráliti sem ég er búin að setja í yfirlestur vegna þess að hæstv. menningarráðherra vildi meina að hún væri fjármögnuð í núverandi fjármálaáætlun. Kannski þarf fjárlaganefnd aftur að fá fjármálaáætlun til sín ef það vill þannig verða að mörg mál sem áttu að vera fjármögnuð í þessari fjármálaáætlun og voru afgreidd er núna verið að semja út af borðinu. Þetta er auðvitað mjög sérstök staða og ekkert óeðlilegt að vakin sé athygli á því að á síðustu metrum þingsins séu stórmál eins og fjármálaáætlun ekki einu sinni komin á dagskrá þingsins.