154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að segja alveg eins og er að þetta fer versnandi. Ég skil ekki orðið þennan hrærigraut þessi sjö ár sem ég er búinn að vera hér og hvernig þetta virðist alltaf fara versnandi ár frá ári. Það er komið á þann stað núna, ruglið er orðið svo mikið, að ég er eiginlega ekkert hissa á því að vefurinn féll niður í morgun. Vefurinn þolir ekki svona rugl. Þið verðið bara að fara að gera eitthvað af viti. Störukeppnin á þessu þingi er alveg stórfurðuleg stundum og maður botnar ekki í því. Ég hef oft hugsað það að ef þessi vinnubrögð væru viðhöfð úti í bæ þá ættum við bara að segja: Guð hjálpi þjóðfélaginu. Þessi vinnubrögð hér inni eru stundum þannig. Að við skulum vera að vinna og vinna í málum, svo bara: Púff. Og þau hverfa vegna þess að ríkisstjórnin getur ekki komið sér saman um eitt eða neitt.