154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa verið sett fram. Hvar er fjármálaáætlun? Við erum búin að vera að vinna í hv. fjárlaganefnd að fjármálaáætlun en það sem er að gerast líka er það að það eru frumvörp í gangi, stór frumvörp, útgjaldafrek frumvörp sem eru ekki fjármögnuð að fullu í fjármálaáætlun. Það er stóra vandamálið. Núna er farið að skera niður annars staðar, í öðrum sjóðum, til að tryggja fjármögnun á útgjaldafrekum frumvörpum. Starfslaun listamanna svo ég nefni dæmi. Og ég var að heyra það rétt áðan með frumvarp um þjóðaróperu, að það væri búið að fella það út. Það er augljóst mál að það er verið að semja um innihald fjármálaáætlunar vegna þess að það er ekki fjármagn til að fjármagna þessi útgjaldafreku frumvörp sem liggja fyrir þinginu núna frá ríkisstjórninni. Það sýnir efnahagsstjórnina í landinu. Það eru 9,25% stýrivextir og við erum að fá mál eftir mál sem fela í sér útgjöld ríkissjóðs, (Forseti hringir.) alltaf útgjöld ríkissjóðs. Þessi efnahagsstjórn er algjörlega fyrir neðan allar hellur (Forseti hringir.) og ég á eftir að sjá það að stýrivextir lækki úr 9,25% í ágústmánuði.