154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:44]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ástandið birtist okkur auðvitað bara ágætlega allt saman í umræðunum sem við áttum á eldhúsdegi hér í Alþingissalnum í gær. Það var mikið talað um ákveðna málaflokka en ríkisstjórnin var ekki mikið að tala um sig sem ríkisstjórn eins og bent var á. Svo var lítið talað um vexti og verðbólgu og efnahagsaðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar, meira farið í aðra hluti eins og við þekkjum. Auðvitað er það þannig að það eru bara orðin almenn sannindi í samfélaginu, og það sjá það allir, að þessi ríkisstjórn er ekki að ná saman um mörg lykilmál og þá er það bara staðan. Það breytir því hins vegar ekki að þingi á að ljúka á morgun sem tekst auðvitað ekki. Það er komið á þann tímapunkt að stjórn og stjórnarandstaða þurfa að ná einhverju samkomulagi um það hvernig eigi að klára alls konar mál, stór mál, mikilvæg mál fyrir þjóðina. Þetta samtal hefur bara enn ekki átt sér stað. Það er ómögulegt fyrir þingmenn að skipuleggja starfið fram undan nú þegar við erum að fara að afgreiða lagafrumvörp í stórum stíl. Það er líka mjög dapurlegt að sjá viðtöl við forseta Alþingis í fjölmiðlum í gær þar sem talað er um að það sé eitthvað mikið samtal á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um hvernig eigi að ljúka þessu þingi. (Forseti hringir.) Það er bara ósatt hjá forseta Alþingis. Það hefur ekkert slíkt samtal átt sér stað.