154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:45]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri ráð að við myndum halda áfram, ekki vera að eyða tímanum í það að deila um hvað er á dagskrá heldur bara drífa okkur í verkin. Vegna orða hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur, um þjóðaróperu, að hún væri ekki fjármögnuð, vil ég upplýsa hv. þingmann um að það er rangt. Við ætlum að taka þjóðaróperuna fyrir á haustþingi. Þjóðarópera er að fá nýjar 75 milljónir plús þær 275 milljónir sem eru til staðar. Formaður allsherjar- og menntamálanefndar fór yfir það mál í viðtali í Morgunblaðinu og það er mikið ánægjuefni að hér séu að eiga sér stað kerfisbreytingar varðandi starfslaun listamanna og ég er sannfærð um að formaður Samfylkingarinnar er ánægð með það. En bara til að leiðrétta hv. þingmann þá er þjóðarópera að fullu fjármögnuð á næsta ári og við höldum bara áfram.