154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar bara að halda því til haga og kannski beina athugasemd til forseta hvað skipulag þingstarfa varðar á næsta ári — þessu verður ekki bjargað þetta árið, ekki úr þessu. Það er auðvitað ótækt svona upp á framvindu mála að þau atriði sem snúa að fjármögnun mála, eða eftir atvikum vanfjármögnun frumvarpa, séu ekki að fljóta upp fyrr en á lokametrum þingsins. Við sjáum bara frétt í Morgunblaðinu í dag um mál er varða samgönguáætlun og framúrkeyrslu í Hornafjarðarfljóti, verkefnum þar, og áhrifin sem það hefur á önnur svæði. Við ræðum hér málefni hæstv. viðskipta- og menningarmálaráðherra og þetta er víðar. Þetta er auðvitað eitthvað sem á að koma upp miklu fyrr en á þessum lokaspretti þings hverju sinni til að þingmenn eigi einhvern möguleika á að glöggva sig á og reyna að vinna úr þeim vandamálum sem þetta skapar.