154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Já, ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra, það er gott að fá gott grín. Eins og þegar hann mætir hingað upp í pontu og sakar þingmenn um að fara með þvælu og þvætting og fer síðan að tala um að þingstörfin gangi ágætlega og ríkisstjórnin sé að klára heila dobíu af málum. Þessi maður á að heita að vera verkstjóri ríkisstjórnarinnar og hann veit betur, hann veit að það er leitun að þingi þar sem þingstörfin hafa verið í jafnmikilli hönk og akkúrat núna. Það er vegna þess að verkstjóri ríkisstjórnarinnar er vanhæfur til starfsins. Það er vegna þess að þingflokksformenn stjórnarflokkanna leggja alla sína orku í að semja sín á milli um það hvaða málum á að slátra og hvaða málum á ekki að slátra. Þeir hafa ekki einu sinni haft rænu á því að ræða við fólkið í hinum flokkunum til að sjá hvernig hægt sé að klára þingstörfin almennt. Eina sem við fréttum um hvaða mál deyja birtist í Mogganum. Þjóðarópera, henni verður nú aldeilis komið á laggirnar. (Forseti hringir.) Og fyrsta skrefið í því er að samþykkja ekki frumvarp um þjóðaróperu. Hver talaði um þvælu og þvætting?

Forseti. Þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) þarf að hætta að gaslýsa þjóðina en fyrst þarf hún að hætta að gaslýsa sjálfa sig. Hún er ekki að skila góðu verki, hún er ekki að skila neinu verki og forseti þarf að (Forseti hringir.) grípa í taumana ef þetta þing á að vera starfhæft.