154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Helsta hlutverk ríkisstjórnar er í rauninni að koma fjárlögum í gegnum þingið, útskýra fyrir okkur hvernig eigi að fjármagna lögbundin verkefni þess sem við samþykkjum sem lög frá Alþingi. Stór hluti af því er einmitt fjármálaáætlun þar sem ríkisstjórnin leggur fram sína stefnu um hvernig á að ná þessum markmiðum, hvernig á að fjármagna menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Í fjárlaganefnd erum við búin að fá upplýsingar um að það vanti 13 milljarða í háskólana til þess að vera samanburðarhæf við Norðurlöndin, 25 milljarða í umhverfis-, orku- og loftslagsmál yfir tímabilið. Þetta vill ríkisstjórnin ekki ræða. Þetta er það sem við erum að segja að er vandamálið og þarf að ræða. En ríkisstjórnin setur útlendingamál fyrst. Það er ekkert mál að tala um útlendingamál, bara hlakka til þess, frábært. En það er tvímælalaust stærra atriði að tala um fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar augljóslega. Þar eru allir milljarðarnir sem er verið að (Forseti hringir.) eyða. Forseti allra þingmanna á að tala við þingmenn um dagskrána, ekki bara troða henni ofan í kokið á okkur (Forseti hringir.) eins og við séum ekki til staðar hérna.