154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Þó að ég sé mikill áhugamaður um að ræða fjármálaáætlun þegar hún er tæk til umræðu þá get ég ekki annað en að fagnað því að fá að ræða hér útlendingamálið í dag við 3. umræðu og vonandi lúkningu þess máls. Það kom mér á óvart að hæstv. forsætisráðherra skyldi halda því fram að við Miðflokksmenn hefðum haldið að málið myndi ekki klárast. Ég er dálítið svekktur, það er greinilegt að hæstv. ráðherra hlustaði alla vega ekki á ræðu mína í gærkvöldi þar sem ég lýsti því yfir að þetta væri loksins að klárast og Vinstri grænir búnir að kyngja. Ég hef skrifað þetta ítrekað í pistlum og þar fram eftir götunum þannig að hæstv. forsætisráðherra er eitthvað að misskilja mat Miðflokksins á þessu máli. Við erum fylgjandi því, höfum alltaf verið, teljum reyndar að það gangi ekki nógu langt. En ég sagði reyndar að ef þetta mál kláraðist ekki þá yrði það fullkomin niðurlæging fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er auðvitað staðan. Málið er að klárast eins og það þarf að gera og síðan þarf að bæta í.