154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:57]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Mér finnst mjög leiðinlegt að segja þetta en ég held að forseti Alþingis hafi vitað meira heldur en kom fram í viðtali við hann í fjölmiðlum í gær. Það er búið að halda því fram hér við okkur núna í meira en viku að það sé alveg að fara að koma að því að við förum að ná einhverri lendingu um það hvernig við ætlum að ljúka þingstörfum. Það er búið að segja þetta dag eftir dag í meira en viku. Við erum að sjá í fjölmiðlum og sjá í skeytasendingum á milli stjórnarþingmanna að það er allt pikkfast í samgönguáætlun. Menn treysta sér ekki til að ræða fjármálaáætlun vegna þess að hér er fjöldi mála ófjármagnaður eins og við erum að lesa um í blöðunum. Við erum að sjá hvernig Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru að reka rýtingana hvor í annan. Gott og vel, þetta er ástandið á stjórnarheimilinu. Það sem við erum hins vegar að hugsa um í mínum flokki er að við þurfum að klára hér fullt af málum. Það eru mál hérna inni sem almenningur á rétt á að við klárum vegna þess að þau færa samfélagið þó að einhverju leyti fram á við, mál sem fólk er sátt um (Forseti hringir.) hér á þessu þingi. Þau eru hins vegar læst inni vegna þess að menn komast ekki að samkomulagi um það hvað eigi að gera og hvernig (Forseti hringir.) eigi að ljúka þingstörfum. Ég fer fram á það (Forseti hringir.) að stjórnarandstaðan fari að fá einhverjar upplýsingar um það hvernig þingstörfin verða hér í næstu viku og jafnvel lengra fram í sumarið. (Forseti hringir.) Það stendur a.m.k. ekki á okkur í Viðreisn að halda hér áfram þangað til það verður hægt að klára þetta með mannsæmandi hætti, (Forseti hringir.) sem maður er reyndar farinn að hafa efasemdir um að verði hægt úr þessu.

Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson tekur til máls öðru sinni um fundarstjórn.