154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér eiginlega aðallega upp til þess að gleðja hæstv. forsætisráðherra með því að tefja þingstörfin og ég næ sennilega að tefja um heila mínútu. Það hlýtur að gleðja hann mikið. En ég skil ríkisstjórnina ósköp vel að vilja ekki að hafa fjármálaáætlun á dagskrá, vegna þess að hún er svo vandræðaleg. Þetta er alveg skelfileg fjármálaáætlun. Ef við bara horfum aftur í tímann og til þeirra sem mest þurfa á hjálp að halda, eldri borgarar, öryrkjar, þeirra sem eru að reyna að tóra í almannatryggingakerfinu, er eitthvað fyrir þá í þessari fjármálaáætlun eða fjárlögum? Nei, ekki nokkur skapaður hlutur. Þessi hópar eiga að þrengja að sér og herða sultarólina, verða fyrir meiri skerðingum, fá minna og mega þakka fyrir að eiga mat fyrir vikuna, sem þeir áttu áður kannski fyrir hálfan mánuð. Að reyna að lifa á engu er það sem ríkisstjórnin boðar fyrir þennan hóp.