154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[11:14]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra heldur því fram hér að þjóðin sé úti á túni. En talandi um tölur og talandi um kaupmátt þá er það svo að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur dregist sama á síðustu fimm ársfjórðungum af þeim sex sem liðið hafa. Það var samdráttur í landsframleiðslu í síðustu mælingu sem birtist frá Hagstofunni. En svo er staðreyndin líka sú, hæstv. forseti, að þó að ríkisstjórnin sé með efnahagsmálin í rugli þá er ekki eins og þau séu búin að gera Ísland fátækt. Það er enginn að halda því fram. Ísland er frábært land en ríkisstjórnin er að sólunda tíma, hún er að sólunda verðmætum, hún er að sólunda skattfé. Þau koma engu til leiðar og þau geta ekki gert þjóðinni það að hanga áfram á stólunum hérna í heilt ár í viðbót. Við munum hvernig þetta var í fyrra, afkastaminnsti þingvetur á öldinni vegna þess að ríkisstjórnin gat ekki komið sér saman um eitt einasta mál og sendi alla í frí. Hver verður staðan núna? Ríkisstjórnin er núna að fara út í sumarið með allt niðrum sig? Ég segi bara: Ég ætla ekki að fara á það plan (Forseti hringir.) að skipa hæstv. forsætisráðherra að skila lyklunum. (Forseti hringir.) En hann þarf að fara út í sumarið og manna sig upp í það (Forseti hringir.) að ræða heiðarlega við kjósendur í haust um hvort það þurfi ekki að boða hér til kosninga. (Forseti hringir.) Þetta er komið gott, forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)