154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að klára setninguna sem ég hafði byrjað á áðan þegar hávær bjölluhljómur klingdi í eyra mínu, en eins og fram kom við 2. umræðu þá fylgjum við Dyflinnarreglugerðinni og við erum þátttakendur í því. Það sem hefur kannski helst verið til umræðu, og það var það sem ég vildi koma á framfæri, er að í einhverjum tilfellum höfum við frestað endursendingum í kjölfar Dyflinnarreglugerðarinnar, þ.e. sum lönd hafa tekið við miklum fjölda og mörg Evrópuríki hafa ákveðið að endursenda ekki til þeirra ríkja. Það hefur verið, held ég, í stöðugri skoðun og hefur tekið einhverjum breytingum.

En hvað það varðar sem hv. þingmaður spyr um er ég bara ekki sammála hv. þingmanni að það sé lagaleg óvissa um þetta. Við erum að fylgja hinum Norðurlöndunum. Það er rétt að í norsku lögunum er þetta ákvæði sem er líka í Dyflinnarreglugerðinni, það er tekið sérstaklega fram í lögunum. Ég treysti Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála til að fjalla um mál sem upp kunna að koma miðað við þau lög sem við vonandi erum að samþykkja frá Alþingi bara strax á morgun, enda er hér ítrekað í öllum lögskýringargögnum (Forseti hringir.) að við stöndum vörð um þá alþjóðasáttmála sem við höfum tekið undir.

(Forseti (ÁsF): Ég hvet þingmenn til að virða ræðutímann sem þeim er úthlutað. Það gengur jafnt yfir alla í því.)

Afsakið. Það var svo hátt bjöllu …