154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara hér í orðræðu eins og hv. þingmaður beinir til mín og tala um gaslýsingar. Það hefur verið farið vel yfir þetta mál og málefnalega í allsherjar- og menntamálanefnd. Hv. þingmaður óskaði eftir því að við tækjum málið aftur inn til nefndar milli 2. og 3. umræðu og að við fengjum umsögn frá umboðsmanni barna. Það gerðum við og við fengum umsögn frá umboðsmanni barna sem liggur fyrir á vef þingsins. Við fengum líka viðbrögð ráðuneytisins við því sem þar fram kom. Það er ágætlega farið yfir það í þessu aukanefndaráliti og ég fór yfir það í ræðu minni hér áðan. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er mikilvægt plagg sem við eigum að hafa í heiðri en það getur ekki núllað út alla aðra löggjöf í landinu. Ég fór ágætlega yfir þessa mismunandi greinar og það að afgreiða mál hratt og vel skiptir máli. (GRÓ: Gildir það um erlend börn?) Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna gildir um erlend börn (Forseti hringir.) en það er ekki hægt að ætla að öll börn eigi að koma til Íslands (Forseti hringir.) út af því að þar ættu þau mögulega að eiga best heimili. Það er ekki hægt að túlka ákvæðið með þeim hætti líka.

(Forseti (ÁsF): Ég minni ræðumenn á tímann, enn og aftur.)