154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir þakkir fyrir gott samstarf í allsherjar- og menntamálanefnd á þessum vetri. Umsögn frá umboðsmanni barna liggur fyrir á vef þingsins og við fengum hana reyndar í ítarlegri útgáfu, seinni umsögnina, og fulltrúi umboðsmanns barna mætti á fund okkar í nefndinni þar sem við fórum yfir þetta. Svo liggur fyrir minnisblað frá ráðuneytinu þar sem er svolítið farið yfir þessa umsögn. Ég verð að segja að ég tel þessi rök umboðsmanns barna ekki mjög sterk, enda erum við ekki að taka tillit til þeirra umsagna að öðru leyti í umfjöllun í nefndaráliti hér á milli umræðna. Eins og ég fór ágætlega yfir í ræðu minni þá skiptir aðeins máli um hvaða greinar er að ræða. En ég bara ítreka það sem ég hef áður sagt. Ég held að við séum með góðar og mikilvægar breytingar. Ég skil umræðuna um þessa þætti en við erum að miða okkur við hin Norðurlöndin. Þau hafa líka fullgilt (Forseti hringir.) barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og beita sambærilegum lausnum og við erum að leggja til hér.