154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. 17. júní er fram undan og við fögnum íslenska þjóðhátíðardeginum. Þá komum við saman til að minnast og heiðra arf okkar og menningu. Þetta er dagur sem tengir okkur söguna við hugrekki og fórnfýsi þeirra sem komu á undan okkur og við það sem hefur mótað okkur sem þjóð. Í ár fögnum við 80 ára afmæli lýðveldisins sem stofnað var í skugga stríðs í Evrópu. Það var sundrung og eiginlega dauðans óvissu tímar en með bjartsýni að vopni ákváðu Íslendingar að slíta formlega konungssambandi við Danmörku. Það hefur verið áræðni fyrir 125.000 manna þjóð sem var fátæk bændaþjóð og varla farin að byggja upp þannig að við gætum staðið á eigin fótum. En það var vissa okkar að þetta gjöfula land með mikilvægar auðlindir væri undirstaða velsældar og sjálfstæðis. Við getum enn treyst okkar gjöfula landi á meðan við nýtum auðlindir okkar á sjálfbæran hátt.

Það er margt sem hefur breyst á 80 árum en sumt er eins. Það er stríð í Evrópu, ekki á sama skala og var árið 1944, en mannslíf hafa tapast, fólk er á flótta og börn gráta. Það er líka stríð víðar í heiminum. Sagt er að 54 þjóðir hái stríð rétt á meðan við dubbum okkur upp sem herlaus þjóð og veifum fána okkar þjóðar sem er fjarri heimsins vígaslóð. Við getum beðið og vonað að friður komist á og fjölskyldur geti sameinast á ný heima eða geti sameinast þar sem þær geta kallað heima og fundið öryggi á ný.

Virðulegi forseti. Á þjóðhátíðardeginum skulum við fagna sameiginlegum áfanga og sameinast í gleði og stolti. Við skulum fagna fjölbreytileikanum og þeim krafti sem býr í fólkinu okkar. Það er hátíð fram undan og við skulum nýta mikilvæg tækifæri til að sameinast og styrkja tengslin okkar hvert við annað.