154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:39]
Horfa

María Rut Kristinsdóttir (V):

Forseti. Mig langar að nýta tímann til að ræða hér aðeins um þá stöðu sem blasir við minni kynslóð, unga fólkinu okkar en ekki síst fjölskyldufólki á Íslandi. Ég spyr: Er samfélagsgerðin okkar að virka fyrir barnafólk? Er ekki eitthvað skakkt og brotið í kerfinu okkar? Hvert sem ég fer eru kröftugir einstaklingar að bugast undan álaginu sem fylgir því að reyna að brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar. Hvert sem ég fer eru sömu einstaklingar að bugast vegna tvöföldunar á greiðslubyrði lána, rándýrrar matarkörfu og þeytivindu sem virðist engan endi ætla að taka.

Alþingi getur ekki firrt sig ábyrgð. Á Alþingi eyðum við ótrúlega miklum tíma í að ræða dauða hluti, steinsteypustofnanir, framkvæmdir, stöðugildi, reglugerðir og lagaramma. Ég krefst þess að við tölum meira um fólk, stöðu þess og áskoranir. Í því samhengi vil ég hvetja þingheim til að skoða færslur Silvíu Friðjónsdóttur á Instagram frá því í gær. Þar lýsir hún þessum veruleika barnafólks sem eignast börn í röngum mánuðum. Þar lýsir hún kerfi sem er ekki hannað utan um veruleika fólks heldur utan um kerfið sjálft.

Ég dáist að langlundargeði minnar kynslóðar sem lætur það sífellt yfir sig ganga að vangetu ráðamanna sé velt yfir á þeirra herðar í formi okurvaxta, undirmönnunar og skilningsleysis á raunverulegum aðstæðum. Finnst fólki skrýtið að hér sé meðaltal barneigna komið undir tvö börn? Er fjölskyldufólk á Íslandi ekki meira virði en þetta? Af hverju er mín kynslóð ekki hrópandi á torgum yfir óréttlætinu, yfir okrinu, yfir skorti á þjónustu sem það leggur þó dag og nótt við að borga fyrir og halda uppi?