154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Síðustu daga hefur verið mjög mikið rætt um þjóðaróperuna, frumvarp hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra sem ljóst er að hlýtur ekki framgöngu á þessu þingi en kemur fyrir þingið næsta haust. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, að ég tel mikilvægt að þjóðaróperan verði sett á fót og ég tel að það yrði mikið framfaraskref fyrir íslenska menningu og samfélag. Það er líka ljóst af þeim umsögnum sem hafa borist þinginu að það er mikill stuðningur í listaheiminum við það að þjóðaróperan verði stofnuð.

Það er mikilvægt að við hér styðjum við íslenska menningu. Í aukinni alþjóðavæðingu eru menning og listir eitt af því sem einkennir hverja og eina þjóð. Ferðamenn leita margir í menningu annarra landa. Stundum er það sérstaklega ástæðan fyrir því að þeir koma til landsins en oft er það bara hluti af þeim heimsóknum sem þeir fara í á meðan þeir eru í öðru landi. Því skipta menningarstofnanir eins og þjóðaróperan miklu máli til að geta sýnt erlendum gestum fjölbreytta íslenska menningu.

Ég tel að listir séu ein besta leiðin til að læra af sögunni. Við förum á söfn, við horfum á bíómyndir, lesum bækur og sjáum leikrit og óperan er enn ein leiðin til að koma sögunni á framfæri. Síðustu ár hér á landi hefur óperan ekki verið með tryggan starfsgrundvöll, það hafa komið upp vandamál vegna kjaramála og hér á landi eru fjölmargir ungir söngvarar sem starfa á allt öðrum vettvangi því það eru ekki til störf við hæfi fyrir þau. Þjóðaróperan þarf að verða að veruleika fyrir íslenska menningu.