154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við vitum ekki alveg hvort hillir undir þinglok en í öllu falli styttist þetta dag fyrir dag. Mig langar að nefna mál sem mér heyrist vera óljóst hvort verði klárað — ég held að það sé mikilvægt að það verði ekki klárað í núverandi mynd hvernig sem þetta allt saman endar — en það er samgönguáætlun sem nú liggur fyrir. Það eru einfaldlega, ég kom inn þetta í ræðu minni hér við eldhúsdagsumræður, það mörg atriði í áætluninni sem kalla á frekari og dýpri skoðun að það er fullkomlega óforsvaranlegt að afgreiða áætlunina eins og hún liggur fyrir núna. Við bíðum endurskoðunar, eða eins og ráðherra kallar það uppfærslu samgöngusáttmálans sem ætti auðvitað að endurskoða. Þar er skipting fjárveitinga og framúrkeyrsla, sérstaklega í ákveðnu kjördæmi, sem bendir til að muni soga til sín allt framkvæmdafé sem annars væri til ráðstöfunar landið um kring. Það eru, bara svo maður horfi til eigin kjördæmis, mál eins og Skógarstrandarvegur sem væri eflaust að lenda í fullkominni upplausn ef mál halda fram sem horfir. Með Sundabrautina erum við því miður föst í sama hægaganginum og föst inni í einhverju fyrirkomulagi sem við virðumst ekki hafa fulla stjórn á, og þannig mætti áfram telja. Þetta eru allt saman atriði sem kalla á yfirlegu, yfirvegaða yfirlegu, bæði nefndar og ráðuneytis. Málið eins og það liggur fyrir núna er ótækt.

Ég hvet hv. ríkisstjórnarflokka til að stíga skref til baka, setja samgönguáætlunina eins og hún liggur fyrir til hliðar, taka hana aftur upp í haust og þá með miklu forsvaranlegri hætti en nú er verið að reyna að gera.