154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Elín Íris Fanndal (Flf):

Virðulegi forseti. Námsgreinar eru flestar þannig skipulagðar að þegar nemandi hefur lokið námi sínu getur hann þá þegar hafið vinnu í sínu nýja fagi. Svo eru sumar námsgreinar þar sem nemandi þarf að námi loknu að öðlast starfsréttindi og þarf þá sem hluti af því ferli að fara í launaða starfsþjálfun, hvort sem það er kandídatsár læknis eða sveinspróf iðnnemanda. En svo er það þriðja tilfellið þegar nemendur þurfa að fara í starfsþjálfun að starfi loknu og vinna fulla vinnu sem er hluti af þeirri starfsþjálfun í því fagi sem þeir hafa lokið námi í en þeir fá ekki borgað fyrir starfsþjálfunina, sem er engu að síður nauðsynlegur hluti og undanfari þess að þeir geti, eins og aðrar stéttir, fengið launaða vinnu við sitt nýja fag. Helga Ben. iðjuþjálfi vakti athygli á því óréttlæti sem nemendur í iðjuþjálfun verða fyrir að námi loknu. Þá þurfa þeir að stunda ólaunaða vinnu sem hluta af sinni starfsþjálfun og flestir þurfa því að taka námslán fyrir þeirri starfsþjálfun og skuldsetja sig þar með til framtíðar. Helga velti því upp hvort hugsanleg ástæða þessa mismunar gagnvart iðjuþjálfun sé sú að iðjuþjálfar eru kvennastétt á meðan múrarar, rafvirkjar og smiðir sem fá greitt fyrir sína starfsþjálfun eru karlastéttir. Það er sorglegt til þess að hugsa að ung kona velti slíku fyrir sér og segir mögulega eitthvað um viðhorf til sumra starfsstétta. Ég tek heils hugar undir með Helgu og það er með öllu ólíðandi að hún og aðrir þurfi að stunda ólaunaða vinnu til að öðlast starfsréttindi. Það þarf að tryggja jafnrétti nemenda hvað þetta varðar og tryggja öllum stéttum, bæði karla- og kvennastéttum, laun fyrir sína vinnu jafnvel þó að hún sé hluti af því ferli að öðlast starfsréttindi.

Svo geri ég að lokum orð þessarar ungu konu að mínum, með leyfi forseta:

Sjáið þið viðskiptafræðing fyrir ykkur vinna heilt ár í banka launalaust áður en viðkomandi fær starfsréttindi? Nei, ég hélt ekki.