154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég hélt í augnablik að hv. þingflokksformaður Vinstri grænna væri að tala um þann kór sem starfar hér daglega og er kór ríkisstjórnarinnar sem er alveg ábyggilega falskur um þessar mundir og það sem verra er, að fulltrúar hvers flokks fyrir sig syngja hver sitt lagið. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að við erum í þessum vandræðum sem við erum hérna. Og nú langar mig að tala raunverulega um störf þingsins, herra forseti. Við verðum áður en við byrjum næsta haust að reyna að leita leiða til að finna fyrirkomulag þannig að hlutirnir gangi aðeins smurðara heldur en nú er, að það safnist ekki allar afurðirnar af færibandinu í einn kepp við útgöngudyrnar og svo eigi að skófla þessu út á nokkrum dögum. Við heyrum lítið frá stjórnarliðum hvað þeir vilja með næstu klukkutíma og næstu daga en það er ljóst að starfsáætlunin er annaðhvort komin úr sambandi eða er u.þ.b. að verða tekin úr sambandi og við eigum eftir risastór mál eins og fjármálaáætlun, samgönguáætlun og ýmis önnur mál. Það sem við fréttum af þingstörfunum er eiginlega mest með því að lesa Morgunblaðið klukkan sex á morgnana þar sem við fáum fréttir um að þetta málið eða hitt sé að tínast út, á sama tíma og fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna við þingflokksformannaborðið fullvissa okkur um að það eigi að klára þessi mál. Nú verður býsna fróðlegt, herra forseti, að komast að því hvort Morgunblaðið er sannspárra en þingflokksformenn stjórnarliða.

Herra forseti. Ég hvet forseta til að leita leiða fyrir næsta haust til að búa þannig um hnútana að hlutirnir gangi nú aðeins betur fyrir sig svona framan af vetri.