154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um stjórnarfrumvarp sem lýtur að mikilvægum málaflokki. Eins og hér kom fram er markmiðið að færa löggjöf um hælisleitendur nær hinum Norðurlöndunum. En við erum ekki að fara hálfa leiðina í átt að Norðurlöndunum hvað þetta varðar. Við erum að reyna að gera það en þetta frumvarp er útvatnað, það kemur útvatnað frá samráðsgáttinni meira að segja, útvatnað með nákvæmlega sama hætti og frumvarp hæstv. Jóns Gunnarssonar á sínum tíma sem var kennt við hv. þingmann. Þetta mál hvílir eins og mara á íslensku samfélagi og þessi ríkisstjórn er ekki að leysa málið. Það mun koma nýtt frumvarp fljótlega aftur til að taka á þessum málum, þetta leysir ekki stóra vandann sem er gríðarlegur fjöldi hælisleitendaumsókna í landinu. Við erum ekki búin að leysa úr þeim vanda sem varð til við sátt 2016 þegar Alþingi Íslendinga samþykkti mestu ólög í þessum málaflokki og öðrum málaflokkum nánast frá lýðveldisstofnun. (Forseti hringir.) Ein breytingartillaga Flokks fólksins miðar að því að taka aftur inn í lögin ákvæði sem voru í gömlu lögunum frá 2002.