154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:19]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórnarflokkarnir endurnýjuðu samstarf sitt á vormánuðum þá sögðu þeir að þeir ætluðu að grípa til aðgerða í útlendingamálum. Það var sérstaklega vísað til þessa máls og það heyrðust miklar efasemdaraddir frá stjórnarandstöðunni um að flokkarnir hefðu getu og burði til þess að ljúka málinu. Við erum að sýna það í verki hér í dag að við höfum getu og burði, áræðni og framtíðarsýn í þessum málaflokki sem birtist í lokum þessa máls í dag. Ég þakka nefndinni sérstaklega fyrir og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir öfluga málafylgju. Ríkisstjórnin er að grípa til aðgerða vegna þrýstings á félagslega og efnislega innviði í landinu sem nauðsynlegt er að gera á þessum tímapunkti. Það er dapurlegt að sjá að ekki sé breiðari samstaða um þessar mikilvægu aðgerðir hér í þinginu. Samhliða þessu er ríkisstjórnin með fjármagn til að fara í inngildingarverkefni vegna þess að rétt er að við höfum skyldum að gegna gagnvart þeim sem við höfum veitt vernd á Íslandi og öðrum þeim sem hafa flutt til landsins til að koma hér undir sig fótunum og starfa. Öllum þessum verkefnum ætlum við að sinna og grípum til aðgerða á þessum tímapunkti. (Forseti hringir.) Og já, við munum áfram vinna að því að aðlaga lög og reglur að því ástandi sem skapast á landamærunum og í landinu.