154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:21]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér eru lagðar til breytingar á útlendingalögum sem muni bæta skilvirkni og fækka umsóknum í málaflokknum. En það er bara ekki rétt. Það eru margir hlutir í þessu frumvarpi sem ég geri athugasemd við eins og það að mannréttindasamtök hafa ekki kost á að tilnefna fulltrúa í kærunefndina lengur. Það á að fækka nefndarmönnum í nefndinni niður í þrjá og þeir fá mjög óskýra heimild til að úrskurða einir í málum. Brottfall 2. mgr. 36. gr. er ekki til þess fallið að vera í samræmi við markmið laganna sem er mannúðleg og skilvirk málsmeðferð í þessum málaflokki. Það er ýmsar aðrar breytingar sem ég geri mjög miklar athugasemdir við sem ég er ekki að fara að tíunda hér, en þessar breytingar voru ekki lagðar til með mannúð að leiðarljósi og ekki lagðar til með skilvirkni að leiðarljósi heldur. Þær gefa tilefni til að staldra við og velta fyrir sér hver þróunin verður og hvert næsta skref verður (Forseti hringir.) og ég óttast að það verði farið að beita þessum lögum afturvirkt gagnvart útlendingum sem hafa þegar fengið einhvers konar leyfi hér eða einhvers konar réttindi.