154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Eins og ég nefndi hér áðan þegar ég var að tala um atkvæðagreiðsluna þá er í útlendingalögum heimild í 99. gr. til að brottvísa útlendingum sem eru með dvalarleyfi í landinu og hafa framið hér alvarlega glæpi, alvarleg brot, en í rauninni er í 42. gr. girt fyrir að þetta geti gilt um þá sem þegar hafa fengið hér hæli eða eru með stöðu flóttamanns. Við erum með þá breytingartillögu að því verði breytt og að í raun nái löggjöfin utan um alla sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar og fremja hér alvarlega glæpi. Við erum ekki að tala um einhverjar hraðasektir eða eitthvað slíkt. Hér erum við að tala um alvarlega glæpi og að þetta nái jafnt yfir þá sem hér eru með dvalarleyfi og aðra sem eru í rauninni með stöðu flóttafólks í landinu.