154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið höfum við í Viðreisn stutt þær breytingar sem auka skilvirkni, draga úr kostnaði o.s.frv. En við drógum alveg skýrt línu í sandinn þegar kemur að börnum. Þess vegna styðjum við þessa frávísunartillögu, þess vegna styðjum við þessa tillögu sem hér er því að hér er verið að ganga á rétt barna. Ég efast um að þessi fallegu orð um inngildingu henti inn í allt þetta mál, að snerta börnin með þessum hætti. Ég efast um að við séum að ganga rétta leið í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég vil benda ykkur á m.a. umsagnir frá UNICEF, umsagnir Rauða krossins þegar kemur að þessu máli. Mér finnst miður að sjá hvernig við erum að snerta og taka utan um börnin í þessu máli. Við í Viðreisn höfum alveg verið skýr. Við höfum viljað ákveðnar róttækar breytingar sem við höfum komið inn á, en þegar kemur að börnum þá getum við ekki stutt að málið haldi áfram óbreytt.