154. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2024.

breyting á ýmsum lögum á fjármálamarkaði.

915. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á fjármálamarkaði (lagfæringar). Frumvarpið felur í sér ýmsar lagfæringar á ákvæðum í sextán lagabálkum á fjármálamarkaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur orðið vart við eða verið bent á. Ábendingarnar bárust einkum frá Seðlabanka Íslands, Eftirlitsstofnun EFTA og Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu fela til að mynda í sér að leiðrétta vísanir milli ákvæða, skýra og samræma hugtakanotkun og fella brott úrelt ákvæði. Þá er brugðist við innleiðingarhalla gerða á fjármálamarkaði með því að lögfesta heimildir ráðherra eða Seðlabanka Íslands til að innleiða Evrópugerðir sem teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Nefndin fjallaði um málið, fékk gesti á sinn fund og umsagnir bárust. Nánar er greint frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í umsögn Seðlabanka Íslands voru lagðar til, til viðbótar við frumvarpið, breytingar á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, og lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Annars vegar lagði Seðlabankinn til að 1. tölul. 4. mgr. 70. gr. laga nr. 70/2020 félli brott. Samkvæmt 70. gr. laganna getur skilavaldið frestað greiðslu eða afhendingu samkvæmt samningum sem fyrirtæki eða eining í skilameðferð hefur stofnað til. Frestunin gildir frá birtingu tilkynningar um frestun til miðnættis næsta dag. Í 4. mgr. ákvæðisins eru undanþegnar tilteknar skuldbindingar, þar á meðal tryggðar innstæður skv. 1. tölul. málsgreinarinnar. Undantekning fyrir tryggðar innstæður í 1. tölul. 4. mgr. 70. gr. endurspeglaði undantekninguna sem finna mátti í 4. mgr. 69. gr. tilskipunarinnar. Hún var felld brott með tilskipun (ESB) 2019/879, eða svokallaðri BRRD II-tilskipun um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB. Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu var ekki gerð athugasemd við brottfall 1. tölul. 4. mgr. 70. gr. þar sem það fæli í sér betra samræmi við tilskipunarákvæðið. Bent var á að brottfall undanþágunnar gæti liðkað fyrir skipulegri skilameðferð fjármálafyrirtækja en á það bent að hún gæti takmarkað aðgang innstæðueigenda að fjármunum sínum. Hins vegar lagði Seðlabankinn til að ráðherra yrði falið að setja stjórnvaldsfyrirmæli skv. 3. mgr. 11. gr. og 4. mgr. 22. gr. laga nr. 70/2020 og 3. mgr. 82. gr. e laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, fremur en Seðlabankanum. Viðkomandi ákvæði fela Seðlabankanum að setja reglur til að innleiða tilteknar undirgerðir BRRD-tilskipunarinnar sem byggjast á tæknistöðlum frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að almennt hefur tíðkast að Seðlabankinn innleiði með reglum undirgerðir Evrópugerða sem byggjast á tæknistöðlum frá evrópsku eftirlitsstofnununum á fjármálamarkaði því að hann á áheyrnaraðild að þeim og tekur þátt í starfi vinnuhópa á þeirra vegum sem fást við mótun tæknistaðla. Ráðherra hafi aftur á móti almennt innleitt með reglugerðum undirgerðir sem byggjast ekki á slíkum tæknistöðlum. Bent er á að tillaga Seðlabankans víki frá þeirri almennu verkaskiptingu en kunni þó að samræmast breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 63/2023, þar sem ráðherra var falið að innleiða tilteknar undirgerðir BRRD-tilskipunarinnar sem vörðuðu skilastjórnvöld fremur en Seðlabankann þótt þær byggðust á tæknistöðlum frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni.

Eftir skoðun á þessu telur nefndin að framangreindar breytingartillögur, sem bárust frá Seðlabankanum, séu of umfangsmiklar og því ekki tímabært að ráðast í þær að svo stöddu. Nefndin beinir því þó engu að síður til stjórnvalda að taka tillögurnar til skoðunar og meta í heild sinni hvort tilefni sé til að leggja þær fram að nýju. Nefndin leggur til minni háttar breytingar sem ekki er ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins og þarfnast því ekki sérstakrar umfjöllunar hér.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim tæknilegu breytingum sem lagðar eru til.

Undir nefndarálitið rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Teitur Björn Einarsson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Elín Íris Fanndal, Guðbrandur Einarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Oddný G. Harðardóttir.

Ég vona að þetta frumvarp komi hér til atkvæðagreiðslu sem fyrst og að við klárum þessar lagfæringar á ýmsum lögum á fjármálamarkaði.