154. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2024.

hafnalög.

[11:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem undir rita Bjarni Jónsson, Vilhjálmur Árnason, Njáll Trausti Friðbertsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Orri Páll Jóhannsson. Í breytingunni felst að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 26. gr. laganna er Hafnabótasjóði heimilt, fram til 1. janúar 2025, að fjármagna framkvæmdir ríkisins án þess að þær séu tilgreindar í gildandi samgönguáætlun.“

Er miðað við að lögin taki þegar gildi ef þau verða samþykkt.

Í greinargerð kemur fram að umhverfis- og samgöngunefnd hafi borist upplýsingar þess efnis að nauðsynlega þurfi að ráðast í framkvæmdir á tilgreindum höfnum innan ársins 2024. Þar sem þær framkvæmdir koma ekki fram í samgönguáætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi líkt og krafist er skv. 1. tölulið 3. mgr. 26. gr. hafnalaga er Hafnabótasjóði óheimilt að fjármagna þær nauðsynlegu framkvæmdir ríkisins. Meiri hluti nefndarinnar telur því nauðsynlegt, svo að nýta megi fjármagnið úr Hafnabótasjóði sem Alþingi hefur ráðstafað til hans, að við lögin verði bætt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að ráðstafa megi fé úr sjóðnum til hinna nauðsynlegu framkvæmda án þess að efnisskilyrði 1. töluliðar 3. mgr. 26. gr. sé fullnægt. Er þó áfram gert ráð fyrir því í samræmi við 3. mgr. 26. gr. að samþykki ráðherra þurfi til og er lagt til að heimildin gildi til 1. janúar 2025.