154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

endurbætur á örorkulífeyriskerfinu.

[10:38]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Ef ég sneiði fram hjá fyrri hluta þessa andsvars þá heyri ég ákveðinn jákvæðan tón frá hæstv. forsætisráðherra sem er gott að heyra. Ég vil hins vegar benda á það, varðandi vinnslu þessa máls, að ÖBÍ, Þroskahjálp og öryrkjar á Íslandi almennt kvörtuðu yfir samráðsleysi við vinnslu þessa frumvarps. Samfylkingin, og líka fleiri flokkar í minni hlutanum, hefur verið í mjög virku samtali við öryrkja, við ÖBÍ. Samfylkingin bauð m.a. hópi öryrkja, og ÖBÍ, hingað til Alþingis til að ræða nauðsynlegar tillögur til úrbóta og þessar tillögur komu út úr því, út af samráðsleysi sem átti sér stað. Þetta er því til þess fallið að bæta málið.

Varðandi það hver mun hafa forgöngu um þetta mál þá er það vitað mál að ef hæstv. forsætisráðherra styður þetta mál mun það liðka fyrir stuðningi við málið hér í þinginu. (Forseti hringir.) Hann er formaður stjórnarmeirihlutans hér á þingi þannig að það hefur auðvitað heilmikið að segja ef afdráttarlaus stuðningur kemur frá hæstv. forsætisráðherra við tillögurnar.