154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[10:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég greini hjá hæstv. forsætisráðherra, og vil hrósa honum fyrir það, sterkan vilja til að taka ákveðin skref varðandi stjórnarskrána. Mér þykir mikilvægt að skynja að vilji sé til að fara í ákveðnar breytingar á stjórnarskránni og ég vil líka undirstrika það að á umliðnum árum, bæði í tíð þessarar ríkisstjórnar og líka síðustu 2017–2021, var unnið gríðarlega gott starf af hálfu þáverandi forsætisráðherra. Við fórum til að mynda mjög vel í forsetakaflann og ég vil undirstrika að það var að mínu mati mikið ákall hjá þjóðinni í tengslum við forsetakosningarnar að fara í ákveðnar breytingar, hvort sem er varðandi meðmælafjöldann, skerpa á hlutverki forsetans o.s.frv., að við færum í þær breytingar. Ég sé líka fyrir mér að við bætum inn íslenskuákvæði sem samstaða var um. Vinnan núna undir forystu hæstv. forsætisráðherra varðandi dómstólakaflann boðar að mínu mati gott og það eru ýmis tækifæri sem við þurfum að skoða, umhverfisákvæði líka.

Eftir stendur að mínu mati, núna þegar við erum búin að tala um lagareldismálið, og ég ætla bara rétt að vona að það fari ekki áfram í bili a.m.k., að það sýnir hversu mikilvægt það er að auðlindir þjóðar séu ekki skiptimynt við ríkisstjórnarborðið. Bara það að einni ríkisstjórn hafi tekist að setja inn ótímabundnar heimildir þegar kemur að auðlindum þjóðar, fjörðunum okkar sem eru sameign þjóðarinnar, þá verðum við að hafa það skýrt í stjórnarskránni að auðlindir eru okkar, eru þjóðarinnar, eru Íslendinga. Við verðum að gæta þess og hafa þetta mjög skýrt þannig að næsta ríkisstjórn, sama hvernig hún verður samsett, geti ekki sett svona mál fram eins og var gert með lagareldið.(Forseti hringir.)

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hann reiðubúinn að beita sér af einurð í að taka það ákvæði inn (Forseti hringir.) í þessa vinnu sem fyrir liggur hjá okkur formönnunum?