154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég var nú bara nokkuð hrifinn af fyrri hluta þessarar ræðu og tók vel því hrósi sem ég fékk þar. Ég er alveg einlægur í því að vilja vinna áfram að breytingum á stjórnarskránni en það er ekki sanngjörn nálgun að segja að hér hafi verið lagt fram lagareldisfrumvarp sem hafi verið ætlað að afhenda einhverjum erlendum öflum varanlega eignir sem eru sameign þjóðarinnar. Þetta er bara ekki sanngjörn nálgun. Það sem er hér lögfræðilega umdeilt er m.a. það að ef einhver er með varanlega leyfisveitingu, hvernig getur maður afturkallað hana? Og um þetta hefur verið margrætt í tengslum við sjávarútveginn, aflaheimildir, og algerlega óumdeilt í dag að þær er hægt að innkalla á hæfilegum árafjölda og sama myndi gilda hér. Það er ekkert hægt að taka þessa umræðu öðruvísi en að menn ræði þá um það, þegar menn tala um tímabundnar leyfisveitingar, hvernig eigi að haga endurnýjun slíks tímabundins leyfis, með hversu miklum fyrirvara o.s.frv. Þá fyrst getum við farið að bera saman það sem er raunverulega verið að tala um. Ég hafna því að það sé ágreiningur við mig sem snúist um það að ég vilji að einhver geti fengið varanlega til eignar og ráðstöfunar einhverjar sameiginlegar eignir ríkisins. Þetta er bara rangt, ég vísa þessu algerlega til heimahúsanna. Kemur ekki til greina að ég tali fyrir einhverri slíkri stefnu, hef aldrei gert það og mun ekki gera. Sá sem heldur sig vera í ágreiningi við mig um þetta er að misskilja málið. Ef við getum komist niður á sameiginlegan skilning um að umræðan um tímabundnar og varanlegar heimildir er ekki svona klippt og skorin eins og hv. þingmaður er að tala um þá held ég að við getum náð góðum árangri, t.d. við breytingar á stjórnarskránni. En Róbert Spanó hefur útskýrt það vel (Forseti hringir.) fyrir formönnum flokkanna, sem hafa setið þessa fundi, að málið er ekki eins og hv. þingmaður er að leggja upp með hér í þingsal.