154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

gjaldtaka á bílastæðum við innanlandsflugvelli.

[11:07]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Virðulegur forseti. Það er nú fjármálaráðherra sem heimilar gjaldtökuna, svo því sé haldið til haga. En mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra: Hallast innviðaráðherra að hugmyndum Sigurðar Inga Jóhannssonar, hæstv. fjármálaráðherra, sem fram koma í tilmælum hans til stjórnar Isavia um að taka tillit til þeirra sem fara í dagsferð í læknisheimsókn? Og hvernig á þá að flokka þau bílnúmer frá? Á að krefjast læknisvottorðs? Hver á svo að meta vottorðið, þ.e. hversu nauðsynleg ferðin var, hvort svipaða þjónustu hefði mátt fá nær lögheimili eða hvort einn dagur dugar til ferðarinnar? Á Isavia að framkvæma þetta mat? Nei, hæstv. ráðherra, er ekki rétt að staldra við og bakka út úr þessum óskapnaði áður en hann festi sig í sessi? Hér held ég að við séum í einhverri refsiherferð gegn landsbyggðinni. Ég hvet ráðherra eindregið til að taka þetta mál til endurskoðunar.