154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

vantraust á matvælaráðherra.

1162. mál
[12:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við komum hér saman í dag til að ræða vantrauststillögu. Eftir aðeins nokkrar vikur, rúmlega tvo mánuði í starfi þá hefur Miðflokkurinn talið ástæðu til að leggja fram vantraust á ráðherra, kvenráðherra í ríkisstjórn að þessu sinni. Hæstv. matvælaráðherra og sá sem hér stendur eru alls ekki sammála eða samstiga í allri pólitík, ekki síst þegar kemur að hvalveiðum. Það breytir því hins vegar ekki að við getum ekki tekið þátt í svona popúlistískum leik. Hér er ekki í fyrsta skipti, ekki í annað skipti, heldur í það minnsta þriðja ef ekki í fjórða sinn gerð tilraun af hálfu stjórnarandstöðunnar til að leggja vantraust á ráðherra. Í stað þess að fara hina hefðbundnu leið, eðlilegu leið, sem hæstv. forsætisráðherra fór svo vel yfir í sínu máli, um að nota þingið til að rannsaka hluti, þá er hrópað: Vantraust, vantraust, vantraust. Þetta minnir mann á söguna Úlfur, úlfur. Við í Framsókn ætlum því að sjálfsögðu að fella þessa tillögu. Stjórnarandstaðan er hér enn og aftur að freista þess að kljúfa ríkisstjórnina sem hér situr sem, ásamt Alþingi og öllum okkur, stendur frammi fyrir miklu stærra og gríðarlega mikilvægu verkefni, því að verja lífskjör þjóðar við erfiðar efnahagslegar aðstæður og erfiðar ytri aðstæður í heiminum. Við munum því greiða atkvæði með því að fella þessa tillögu, verja ríkisstjórnina og halda áfram að vinna að brýnum verkefnum fyrir land og þjóð.