154. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2024.

Flutningur höfuðstöðva Náttúrufræðistofnunar, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

[13:05]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um flutning og staðsetningu höfuðstöðva Náttúrufræðistofnunar. Flutti ráðherra áðan þau ánægjulegu tíðindi að höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar yrðu á Vesturlandi. Í mínum huga er svarið skýrt: Þær eiga að vera í umhverfi þar sem þær eiga heima í ljósi sinna verkefna og viðfangsefna. Vart er hægt að finna jafn góðan stað fyrir höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar og á menntasetrinu Hvanneyri, nema ef vera skyldu Hólar í Hjaltadal. Hvanneyri er eitt helsta menntasetur landsins þegar kemur að rannsóknum og kennslu um náttúru Íslands og sjálfbæra landnýtingu. Návígi höfuðstöðva Náttúrufræðistofnunar Íslands við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og sú faglega umgjörð sem þar er vegur þyngra en verslanir Costco og Ikea, svo að litið sé til núverandi staðsetningar. Á Hvanneyri fara fram öflugar rannsóknir, þróunarstarf og kennsla á sviði náttúru- og umhverfisfræða, umhverfisbreytinga á norðurslóðum, endurheimtar vistkerfa, búvísinda, landslags- og skipulagsfræða og á fleiri sviðum.

Staðsetning höfuðstöðva Náttúrufræðistofnunar á Hvanneyri, í návígi við viðfangsefni hennar og verkefni, umvafin náttúru Íslands fremur en í stóru malbikseylandi á höfuðborgarsvæðinu miðju, gæti ekki verið betur til fundin. Að geta tengt starfsemi stofnunarinnar betur við það öfluga rannsókna- og fræðastarf sem fer fram við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri á eftir að efla hana til muna og tengja hana betur við og gera öflugri í verkefnum sínum og samstarfi við rannsóknastofnanir víða um land. Það er einnig mikill styrkur fyrir starf Landbúnaðarháskólans að höfuðstöðvum Náttúrufræðistofnunar verði fundinn staður heima á Hvanneyri. Ég hvet hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ráðherra til dáða í að efla á Akranesi það starf sem unnið hefur verið til skamms tíma hjá Landmælingum Íslands og starf RAMÝ við Mývatn en þessar stofnanir hafa nú sameinast Náttúrufræðistofnun Íslands.

Að lokum skora ég á ráðherra að ganga styrkum skrefum til þess verks að flytja höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar Íslands á mennta- og fræðasetrið Hvanneyri í Borgarfirði. Þar eiga þær heima.