154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:06]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum hér að greiða atkvæði um stefnu þessarar ríkisstjórnar næstu árin þó að það sé reyndar óljóst hvort hún muni sitja, þessir sömu flokkar, á þessu tímabili. Hér er um talsvert af ófjármögnuðum verkefnum að ræða sem m.a. hafa verið samþykkt hér í þingsal en er ekki að finna í þessari fjármálaáætlun. Af þeim ástæðum, vegna þess að þetta er auðvitað pólitísk stefna stjórnvalda og það vantar heilmikið upp á, er Samfylkingin rauð á málinu í heild sinni. Hins vegar er að finna breytingartillögur við fjármálaáætlun sem varða fjármögnun á Landhelgisgæslunni, lögreglu, dómstólum, sendiráði á Spáni og Háskólanum á Hólum og við styðjum auðvitað að aukið fjármagn renni þarna inn. Ég vek hins vegar athygli þingsins á því, forseti, að ekkert af þessu fékk viðbótarfjármögnun eftir að þetta var sett inn í fjármálaáætlun. Þetta er síendurtekið stef í öllu sem er samþykkt hér inni en tilgangurinn er góður engu að síður. Þetta er bara einfaldlega ekki í takt við raunveruleikann.