154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[11:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nokkur orð í kjölfar orða hæstv. fjármálaráðherra. Ég held að í þessum sal fagni því allir að kjarasamningar hafi verið gerðir til fjögurra ára. Það fagna því allir og fjárlaganefnd hefur öll setið sveitt við það að reyna að finna fjármuni fyrir þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem blasir nú reyndar ekki við hvar eru. En það er ekki hægt að tala með þeim hætti að fulltrúar stjórnarandstöðunnar séu fyrst í dag að benda á ýmsa ágalla á málinu. Það hefur verið rauður þráður við vinnuna allan tímann. Stjórnarandstaðan stendur sannarlega ekki ein þar. Fjármálaráð, ráð óháðra sérfræðinga, kom fyrir nefndina með snyrtilegt en mjög skýrt orðalag um það að ríkisstjórnin væri hér mögulega einu sinni sem oftar rangstæð við í lög um meðferð opinberra fjármála.